Fréttir

3. maí 2011

Ávöxtun Íslenska lífeyrissjóðsins á fyrsta ársfjórðungi 2011

Ávöxtun Íslenska lífeyrissjóðsins var með ágætum á fyrsta ársfjórðungi 2011. Allar séreignardeildir sjóðsins hækka talsvert á tímabilinu.

Hér má sjá ávöxtun frá áramótum til 31.3.2011:

Ávöxtun á fyrsta ársfjórðungi

  Nafnávöxtun Raunávöxtun
Líf I
3,13%
2,52%
Líf II
2,65%
2,04%
Líf III
2,59%
1,97%
Líf IV
1,75%
1,14%
Samtrygging
1,98%
1,37%

Uppgjörsaðferð Íslenska lífeyrissjóðsins er misjöfn eftir því hvort um er að ræða séreign eða samtryggingu. Þannig er ávöxtun LÍF I-IV, sem eru séreignardeildir, reiknuð út frá markaðsvirði undirliggjandi verðbréfa sjóðsins og því hefur hækkun/lækkun á verði bréfa strax áhrif á ávöxtunina. Ávöxtun samtryggingar er reiknuð þannig að skuldabréf samtryggingardeildar eru reiknuð út frá ávöxtunarkröfu kaupdags. Því hafa sveiflur á gengi skuldabréfa á markaði engin áhrif á uppreiknað verð bréfanna. Þessi munur á uppgjörsaðferð skýrir að mestu leyti mismunandi ávöxtun séreignardeildar (Líf I-IV) og samtryggingar.

Ávöxtun

Hækkun sjóðsins á fyrsta ársfjórðungi var drifin áfram af ávöxtun verðtryggðra ríkisskuldabréfa. Þannig lækkaði vísitala 5 ára óverðtryggðra skuldabréfa um 0,80% en vísitala 5 ára verðtryggðra skuldabréfa hækkaði um 5,30%. Allar ávöxtunarleiðir Íslenska lífeyrissjóðsins eiga mikið af ríkistryggðum skuldabréfum.

OMXI6 vísitala innlendra hlutabréfa hækkaði um 7,09% á tímabilinu. Sú hækkun var aðallega drifin áfram af hlutabréfum Icelandair Group hf., sem hækkuðu um 44,13% á tímabilinu, og hlutabréfum Marel hf., sem hækkuðu um 28,50%. Samþykkt var á aðalfundi Össurar hf. í byrjun mars að hlutabréf félagsins yrðu einungis skráð á hlutabréfamarkaðnum í Kaupmannahöfn og yrðu því tekin úr viðskiptum í Kauphöll Íslands (KÍ). Seinna í mars gaf KÍ út tilkynningu þess efnis að bréf Össurar hf. yrðu tekin til viðskipta án samráðs við félagið og yrðu því skráð bæði á Íslandi og í Danmörku.

Erlend hlutabréf hækkuðu einnig á tímabilinu. Heimsvísitala hlutabréfa (MSCI World Index) hækkaði um 3,70% og er sú hækkun aðallega tilkomin vegna hækkunar bandarískra og evrópskra hlutabréfa. Jarðskjálftinn sem skók Japan í mars hafði töluverð áhrif til lækkunar á alþjóðlegum hlutabréfum . Sem dæmi lækkaði MSCI WI um 1,24% í mars.

Nokkrar ávöxtunarleiðir Íslenska lífeyrissjóðsins eiga hlutdeild í Fyrirtækjabréfum Landsbankans, sem er verðbréfasjóður í slitaferli, en gengi sjóðsins hækkaði um 5,93% á fjórðungnum.

Seðlabanki Íslands gaf í mars út áætlun um afnám hafta á útflæði gjaldeyris. Þar kemur fram að höftin verði afnumin í tveimur skrefum og búist er við að fyrsta skrefið taki allt að fjögur ár. Gjaldeyrishöftin verða því áfram hluti af rekstrarumhverfi Íslenska lífeyrissjóðsins í nánustu framtíð.