Fréttir

22. desember 2011

Frumvarp um skattlagningu lífeyrissparnaðar

Nú um áramót ganga í gegn breytingar er varða skattlagningu lífeyrissparnaðar. Gert er ráð fyrir að frádráttarbært viðbótariðgjald sem ráðstafað er í séreignarsparnað lækki úr 4% í 2% af launum. Við höfum áður bent á að haldi launþegi áfram að greiða 4% framlag í viðbótarlífeyrissparnað getur það leitt til þess að viðbótarframlag hans yrði tvískattlagt.

Það hefur verið sett sérstakt ákvæði inní lögin sem kveður á um að það sé á ábyrgð launagreiðanda að borga 2% iðgjald, nema rétthafi óski sérstaklega eftir öðru og þarf það að vera gert með skriflegum hætti.

Sú umræða hefur verið í gangi í fjölmiðlum að við þessa breytingu verði viðbótarlífeyrissparnaður óhagkvæmur sparnaður. Sú fullyrðing er byggð á misskilningi því viðbótarlífeyrissparnaður mun áfram vera hagkvæmasta sparnaðarform sem völ er á. Því ef framlag launþega er lækkað úr 4% í 2% mun engin skattlagning eiga sér stað við innborgun. Mótframlag atvinnurekanda verður áfram það sama eða 2% samkvæmt flestum kjarasamningum. Einnig er viðbótarlífeyrissparnaður skattalega hagkvæmur því ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af honum eins og öðrum sparnaði og hann er ekki aðfararhæfur.

Viðbrögð Landsbankans og Íslenska lífeyrissjóðsins við þessum breytingum á lögum
Ekki verður ástæða til þess að breyta samningum um viðbótarlífeyrissparnað hjá Landsbankanum eða Íslenska lífeyrissjóðnum. Nýju lögin ganga tímabundið inní samningana og færa framlag sjóðfélaga niður 2%. Þegar lagaákvæðið fellur úr gildi í lok ársins 2014, mun framlag samkvæmt samningi virkjast á ný. Samkvæmt lögunum er það á ábyrgð launagreiðanda að lækka iðgjald niður í 2%. Við munum þó fylgjast með því að rétt iðgjald berist og auk þess eru sjóðfélagar hvattir til þess að skoða launaseðlana sína vel til þess að tryggja að rétt iðgjald sé greitt í viðbótarlífeyrissparnað.

Við viljum vekja athygli á því að í kjölfarið af þessum lagabreytingum munum við senda  út bréf til launagreiðanda og sjóðfélaga.