Fréttir

22. febrúar 2011

Ávöxtun ársins 2010

Ávöxtun allra deilda Íslenska lífeyrissjóðsins var umfram væntingar árið 2010.

Ávöxtun 2010

 Deild Nafnávöxtun  Raunávöxtun
 Líf I 13,44% 10,55%
 Líf II 11,85% 9,01%
 Líf III 11,79% 8,95%
 Líf IV 13,42% 10,53%
 Sameign 7,24% 4,51%

Uppgjörsaðferð Íslenska lífeyrissjóðsins er misjöfn eftir því hvort um er að ræða séreign eða samtryggingu. Þannig er ávöxtun LÍF I-IV, sem eru séreignadeildir, reiknuð út frá markaðsvirði undirliggjandi verðbréfa sjóðsins og því hefur hækkun/lækkun á verði bréfa strax áhrif á ávöxtunina. Ávöxtun samtryggingar er lægri en ávöxtun LÍF II þó fjárfestingarstefnan sé sú sama vegna þess að verð skuldabréfa samtryggingardeildar eru reiknuð út frá ávöxtunarkröfu kaupdags. Því hafa sveiflur á gengi skuldabréfa á markaði engin áhrif á uppreiknað verð bréfanna. Þessi munur á uppgjörsaðferð skýrir að mestu leyti mismunandi ávöxtun milli séreignadeildar (Líf I-IV) og samtryggingar.

Ávöxtun eigna

Einna helst er það góð ávöxtun ríkisskuldabréfa sem skýrir góða ávöxtun sjóðsins. Allir helstu flokkar ríkistryggðra skuldabréfa hækkuðu mikið í verði á tímabilinu. Þannig hækkaði 5 ára vísitala óverðtryggðra skuldabréfa um tæp 22% á árinu og 10 ára verðtryggða vísitalan hækkaði um tæp 13%. Stærsti hluti eigna Íslenska lífeyrissjóðsins er í ríkistryggðum skuldabréfum og því kom þessi hækkun sér vel fyrir sjóðfélaga, sérstaklega þeirra sem eiga fjármuni í LÍF IV, þar sem fjárfestingastefnunni var breytt í 100% ríkistryggð verðbréf um síðustu áramót.

Líkt og aðrir lífeyrissjóðir gerði Íslenski lífeyrissjóðurinn samning um kaup á verðtryggðum ríkisskuldabréfum af Seðlabanka Íslands gegn sölu erlendra eigna á árinu. Alls keypti sjóðurinn skuldabréf fyrir tæpan milljarð króna og greiddi fyrir það með evrum. Sú ráðstöfun hafði verulega jákvæð áhrif til hækkunar á virði einstakra deilda sjóðsins, en mest í LÍF I, eða tæplega 3,5%.

Erlend hlutabréf hækkuðu almennt á síðasta ári. Þannig hækkaði MSCI vísitalan, heimsvísitala hlutabréfa, um 9,29% í dollurum talið á tímabilinu. Styrking krónunnar um tæp 11% á síðasta ári gerði það að verkum að ávöxtun á erlendum hlutabréfum í krónum varð lítil, eða rétt liðlega 0,6%.

Virði fyrirtækjabréfa í sjóðnum hækkaði á síðasta ári. Ástæðan er sú að væntar endurheimtur jukust frá því sem áður var áætlað og skuldabréf á gömlu bankana hafa hækkað í verði síðustu mánuði. Þrátt fyrir þessa hækkun er markmiðið eftir sem áður að vera varfærin í mati á virði þessara bréfa.

Erfitt er að spá fyrir um ávöxtun ársins 2011. Ljóst er að vaxtastig á Íslandi er orðið mjög lágt og því hæpið að sjóðurinn komi til með að skila jafn góðri ávöxtun og á síðasta ári. Mikil óvissa er um afnám gjaldeyrishafta, hvort og þá hvenær þeim verður aflétt. Afnám haftanna mun ráða miklu um þróun gengis og vaxta í framtíðinni og þar með ávöxtun Íslenska lífeyrissjóðsins.