Fréttir

30. september 2011

Breytingar á lögum er varða úttekt á viðbótarlífeyrissparnaði

Með lögum sem samþykkt voru á Alþingi 17. september s.l. var heimild til fyrirframgreiðslu viðbótarsparnaðar aukin úr 5.000.000 kr. í 6.250.000 kr. Heimild til aukinnar úttektar tekur gildi 1. október n.k. og er úttektartímabilið allt að 15 mánuðir. Byrjað verður að taka á móti umsóknum frá og með mánudeginum 3. október. Stefnt er að því að opnað verði fyrir umsóknir í gegnum Einkabanka miðvikudaginn 5. Október. Í síðasta lagi þarf að vera búið að sækja um úttekt fyrir 1. júlí 2012.

Gagnlegar upplýsingar er varða úttekt á viðbótarlífeyrissparnaði

1. Hámarksúttekt er 6.250.000 kr. sem greiðist með mánaðarlegum greiðslum að hámarki 416.667 kr. á mánuði í allt að 15 mánuði. Ef úttekt er lægri en 6.250.000 kr. styttist útgreiðslutími hlutfallslega. Tekjuskattur er greiddur af úttektarupphæðinni.

2. Fyrsta útgreiðsla samkvæmt þessari breytingu fer fram 20. október ef umsókn hefur borist fyrir 10. október.

3. Fjárhæðin sem hægt er að taka út miðast við stöðuna 1. október. Ekki er hægt í neinum tilfellum að óska eftir hærri upphæð til útgreiðslu en 6.250.000 kr. Svo dæmi sé tekið hafi viðskiptavinur áður fengið útgreitt samtals 2.500.000 kr. getur hann einungis óskað eftir því að fá 3.750.000 kr. útgreitt með þessari auknu heimild.

4. Þær greiðslur sem berast í sjóðinn eftir 1. október verður ekki hægt að fá útgreitt.

5. Þeir sem eru nú þegar með útgreiðsluplan í gangi og vilja óska eftir frekari greiðslum þurfa að sækja um þá hækkun með nýrri umsókn. Hækkunin mun því bætast aftan við fyrra útgreiðsluplan og lengja útgreiðslutímann sem því nemur.