Fréttir

19. október 2011

Breyting á skattlagningu viðbótarlífeyrissparnaðar

Mikil umræða hefur átt sér stað um fyrirhugaða breytingu á skattlagningu viðbótarlífeyrissparnaðar. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að frádráttarbært viðbótariðgjald sem ráðstafað er í séreignarsparnað lækki úr 4% í 2% af launum. Bent hefur verið á að gangi þessi breyting í gegn og haldi launþegi áfram að greiða 4% framlag í viðbótarlífeyrissparnað leiðir það til tvískattlagningar á viðbótarframlagi hans.

Sú umræða hefur verið í gangi í fjölmiðlum að við þessa breytingu verði viðbótarlífeyrissparnaður óhagkvæmur sparnaður. Sú fullyrðing er byggð á misskilningi, því viðbótarlífeyrissparnaður mun áfram vera hagkvæmasta sparnaðarformið sem völ er á. Lækki framlag launþega úr 4% í 2% mun engin skattlagning eiga sér stað við innborgun. Mótframlag atvinnurekanda verður áfram það sama eða 2% samkvæmt flestum kjarasamningum. Einnig er viðbótarlífeyrissparnaður hagkvæmur því ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af honum eins og öðrum sparnaði og hann er ekki aðfararhæfur.

Verði þessi breyting á skattlagningu lífeyrissparnaðar að lögum munum við bregðast við á þann hátt að breyta öllum samningum sem eru með 4% framlagi launþega og lækka það niður í 2%. Það verður gert til að koma í veg fyrir að sjóðfélagar okkar lendi í tvísköttun á hluta af sparnaðinum. Einnig munum við hafa samband við launagreiðendur og tilkynna þeim breytinguna.

Að okkar mati er þessi breyting vanhugsuð því með henni er vegið að langtímasparnaði og afkomu fólks á efri árum. Við viljum þó árétta að þetta frumvarp á eftir að fara í umræðu og nefndir á Alþingi áður en það verður samþykkt. Ýmislegt kann að breytast og vonandi ber ráðamönnum gæfa til að falla frá þessum hugmyndum.