Fréttir

7. júní 2011

Niðurstöður ársfundar Íslenska lífeyrissjóðsins

Ársfundur Íslenska lífeyrissjóðsins fór fram miðvikudaginn 1. júní kl. 17.00 á Hilton Reykjavík Nordica. Í ræðu Jón Snorra Snorrasonar, formanns stjórnar, kom m.a. fram að stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins er ánægð með þann árangur sem náðist í rekstri hans á síðasta ári. Raunávöxtun séreignaleiða sjóðsins hefði verið á bilinu 8,8% til 10,5% á síðasta ári og raunávöxtun samtryggingar nam 4,63% sem er ein sú besta hjá lífeyrissjóðum á síðasta ári. Tryggingafræðileg staða sjóðsins er jákvæð um 0,8% sem einnig er með því besta hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Jafnfram kom fram í máli stjórnarformanns að stjórn sjóðsins hafi ákveðið að semja á ný við Landsbankann um rekstur sjóðsins, en Landsbankinn hafði sagt upp eldri samningi.

Helstu niðurstöður ársreiknings

Helstu niðurstöður ársreikningsins 2010 eru að iðgjöld námu alls 3.367 m.kr. og greiddur lífeyrir 2.017 m.kr. Fjárfestingartekjur námu 3.291 m.kr. og fjárfestingargjöld og rekstrarkostnaður samtals 143 m.kr. Þannig hækkaði hrein eign sjóðsins um 4.499 m.kr. og nam 30.664 m.kr. í árslok 2010. Fjöldi virkra sjóðfélaga var að meðaltali 8.118 og heildarfjöldi sjóðfélaga í árslok var 27.684. Alls fengu 529 einstaklingar greiddan lífeyri úr sjóðnum á síðasta ári.

Kosning stjórnar

Atli Atlason og Þórir Óskarsson voru réttkjörnir í stjórn sjóðsins til tveggja ára.
Þorsteinn Fr. Sigurðsson var kjörinn varamaður í stjórn til tveggja ára og Snorri Ómarsson varamaður til eins árs.
Á fundinum var tilkynnt að Landsbankinn tilnefndi Sigríði Hrefnu Hrafnkelsdóttur í stjórn sjóðsins til næstu tveggja ára og Unu Eyþórsdóttur sem varamann hennar.

Tillögur til breytingar á samþykktum

Tillögur stjórnar sjóðsins til breytinga á samþykktum hans voru samþykktar. Nánari upplýsingar í fundargerð ársfundar sjóðsins.

Um stjórnarmenn

Atli Atlason

Viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1992. Lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1986. Forstöðumaður fjármála- og rekstrarsviðs Fiskistofu 1992-1999. Forstöðumaður starfmannahalds Búnaðarbankans 1999-2003. Framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Landsbanka Íslands hf. 2003-2008. Framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Landsbankans (NBI hf.) 2008-2010. Atli hefur setið í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá október 2009.

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir

Sigríður er lögfræðingur frá HÍ og með lögmannsréttindi. Hún er MBA frá Copenhagen Business School og er framkvæmdastjóri Sparisjóðabanka Íslands, sem er í slitameðferð. Áður starfaði hún hjá Straumi fjárfestingarbanka og Stoðum fasteignafélagi.

Þórir Óskarsson

Tryggingastærðfræðingur hjá Vátryggingafélagi Íslands. Lauk BSc prófi í stærðfræði frá HÍ árið 2000 og stundaði nám í tryggingastærðfræði við Kaupmannahafnarháskóla 2003 til 2006 og lauk Cand. Act. prófi þaðan haustið 2006. Hann hlaut viðurkenningu FME sem tryggingastærðfræðingur 5. janúar 2009 og var sá fyrsti í 10 ár til að hljóta þá viðurkenningu. Starfaði hjá dönsku tryggingafélagi 2006-2009. Þórir hefur setið í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá október 2009, auk þess að sitja í endurskoðunarnefnd sjóðsins.

Um varamenn

Snorri Ómarsson

Er með BSc próf í viðskiptafræði frá HÍ og meistarapróf í fjármálum fyrirtækja frá HR. Starfsmaður í greiningardeild Landsbanka Íslands frá 2007-2009. Hef verið flugmaður hjá Icelandair frá árinu 1998 og er nú starfandi flugstjóri hjá Icelandair. Sat sem varamaður í stjórn Eftirlaunasjóðs atvinnuflugmanna frá 1999-2005 og gaf út upplýsingabækling varðandi lífeyrisréttindi flugmanna árið 2004.

Una Eyþórsdóttir

Una er með meistaraspróf í mannauðsstjórnun frá HÍ og MBA gráðu frá HÍ. Una var skrifstofustjóri viðskiptadeildar HR á árunum 2009-2010. Á árunum 2001 – 2008 var hún starfsmannastjóri Icelandair.

Þorsteinn Fr. Sigurðsson

Rekstrarhagfræðingur og framkvæmdastjóri Stjórnlagaráðs. Þar áður var hann framkvæmdastjóri undirbúningsnefndar Stjórnlagaþings, framkvæmdastjóri Bandalags ísl. skáta í 18 ár og rekstrarráðgjafi fyrir þann tíma. Er með BA og MBA í alþjóðaviðskiptum, ML í lögfræði frá 2010 og löggildingu í verðbréfamiðlun 2005. Þorsteinn er virkur í félagsmálum og sat m.a. í safnaðarnefnd Vídalínskirkju í 8 ár, félagi í JC til fjölda ára, m.a. verið Landsforseti, Senator og er nú heiðursfélagi, gegndi ýmsum ábyrgðarstörfum innan skátahreyfingarinnar sem sjálfboðaliði áður en hann tók við starfi framkvæmdastjóra BÍS, var í stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga í 3 ár, og í Æskulýðsráði ríkisins í 6 ár. Þorsteinn hefur setið í endurskoðunarnefnd Íslenska lífeyrissjóðsins frá júní 2010.

Fundargerð ársfundar Íslenska lífeyrissjóðsins 2011