Fréttir

5. júlí 2012

Úttekt FME staðfestir sterka stöðu Íslenska lífeyrissjóðsins

Samkvæmt yfirliti Fjármálaeftirlitsins um stöðu íslenskra lífeyrissjóða fyrir árið 2011 geta aðeins þrír sjóðir sýnt fram á jákvæða tryggingarfræðilega stöðu. Þetta eru Íslenski lífeyrissjóðurinn og Lífeyrissjóður Tannlækna sem báðir eru reknir af Landsbankanum og Lífeyrissjóður Búnaðarbankans. Jákvæð tryggingarfræðileg staða er til marks um að núverandi eignir standa undir því sem þegar er búið að lofa í formi lífeyris og er sá mælikvarði sem besta mynd gefur af stöðu lífeyrissjóðanna.

Allir aðrir sjóðir, bæði almennir og opinberir, sýna neikvæða stöðu og hefur þurft að skerða réttindi sjóðsfélaga í sjóðum á almenna markaðnum sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda frá bankahruni um meira en 130 milljarða króna. Í sjóðum með ábyrgð launagreiðenda sem eru opinberir aðilar, hefur safnast upp mikill halli sem lendir að öllu óbreyttu á ríki og sveitarfélögum.

Íslenski lífeyrissjóðurinn hefur náð góðri ávöxtun á síðustu árum, staða sjóðsins er mjög sterk og því fyrirséð að engar skerðingar á réttindum sjóðsfélaga eru framundan. Hægt er að velja um fjórar leiðir eftir því hversu mikla áhættu sjóðsfélagar vilja taka. Á síðustu þremur árum hafa þær skilað á bilinu 11,64% - 12,99% í nafnávöxtun.

Íslenski lífeyrissjóðurinn er almennur lífeyrissjóður sem starfar skv. lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þeir sem ekki eru bundnir af ákvæðum kjarasamninga eða laga er frjálst að greiða lögbundinn lífeyrissparnað til hans og öllum er heimilt að greiða til hans viðbótarlífeyrissparnað.